Ferill 808. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1986  —  808. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Brynjari Níelssyni um kostnað ráðuneytisins við skrifleg svör við fyrirspurnum.


     1.      Hversu margir starfsmenn ráðuneytisins koma að því að undirbúa skrifleg svör við fyrirspurnum þingmanna og hver er áætlaður heildarfjöldi vinnustunda sem í það hefur farið árlega síðastliðin fimm ár?
    Ekki er haldið sérstaklega utan um fjölda og vinnutíma starfsmanna sem fer í að undirbúa skrifleg svör við fyrirspurnum þingmanna. Svör við fyrirspurnum krefjast mismikillar vinnu eftir eðli þeirra og umfangi og getur numið frá nokkrum klukkustundum upp í nokkra vinnudaga fyrir hverja og eina. Í mörgum tilvikum þarf að senda fyrirspurnir til stofnana ráðuneytisins til að fá upplýsingar sem krefst vinnu af hálfu starfsmanna viðkomandi stofnana.
    Fjöldi fyrirspurna á hverju löggjafarþingi síðustu ár hefur verið milli 27 og 45 ef frá er talið 147. löggjafarþing. Að öðru leyti vísast til eftirfarandi töflu:

Fyrirspurnir
Staða 26.6.2020
Svarað skriflega Svarað munnlega Bíða svars Svar barst ekki Felldar niður Alls
150. löggjafarþing 2019–2020 14 9 22 0 0 45
149. löggjafarþing 2018–2019 35 5 0 0 0 40
148. löggjafarþing 2017–2018 30 3 0 0 0 33
147. löggjafarþing 2017 4 0 0 1 0 5
146. löggjafarþing 2016–2017 27 4 0 1 0 32
145. löggjafarþing 2015–2016 20 7 0 0 0 27
144. löggjafarþing 2014–2015 28 10 0 1 1 40

     2.      Hver er heildarkostnaður ráðuneytisins við skrifleg svör við fyrirspurnum frá þingflokki Pírata á yfirstandandi löggjafarþingi og hversu margar vinnustundir starfsmanna hafa farið í að svara þeim?
    Ekki liggur fyrir hver heildarkostnaður ráðuneytisins við skrifleg svör við fyrirspurnum frá þingflokki Pírata á yfirstandandi löggjafarþingi var eða hversu margar vinnustundir starfsmanna hafa farið í að svara þeim.

     3.      Hvað eru fyrirspurnir til skriflegs svars frá hverjum þingmanni í þingflokki Pírata hátt hlutfall slíkra fyrirspurna til ráðherra?
    Af 36 skriflegum fyrirspurnum á yfirstandandi löggjafarþingi til ráðuneytisins er helmingur frá þingflokki Pírata. Þannig hafa alls borist 18 fyrirspurnir til skriflegs svars frá tveimur þingmönnum í þingflokki Pírata á yfirstandandi löggjafarþingi, 17 frá Birni Leví Gunnarssyni og 1 frá Smára McCarthy.